Um okkur

Handavinnubarinn er vefverslun sem rekin er af MB Kind Handverk ehf.

Hér sameinum við íslenskt handverk undir merkinu B Kind Handverk við nútíma hæglæti með sérstakri áherslu á prjón, hekl og aðra handavinnu sem kalla á það að gefa sér tíma, hugleiða og slaka á. 

Á bakvið fyrirtækið MB Kind Handverk ehf standa hjónin Aðalheiður Ásdís og Mimoun Boutaayacht og saman reka þau Handavinnubarinn og MB Verktaka undir sama hatti með handverk bæði fyrir handavinnu og fyrir skrúðgarðyrkju.  

Handavinna hefur átt stóran part í lífi Aðalheiðar frá barnsaldri hvort sem það er tengt prjóni, hekli, föndri eða leirlist. Það hefur með aldrinum aukist til muna og þá sérstaklega síðustu ár. Draumur Aðalheiðar hefur lengi verið sá að geta skapað með handavinnu og leyfa öðrum að njóta góðs af og var það til þess að bæði Handavinnubarinn og vörumerkið B Kind Handverk óx og varð að raunveruleika eftir að hún lauk BS prófi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri vorið 2025. Aðalheiður hefur síðastliðin ár deilt frá sínu daglega lífi á Instagram reikningnum Lifðu Nærðu Njóttu ásamt því að sjá um samfélagsmiðla MB verktaka en Mimoun, eiginmaður Aðalheiðar hefur sinnt hellulögnum og annarri jarðvegsvinnu síðastliðin ár og nú starfa þessi fyrirtæki saman undir fyrirtækjaheitinu MB Kind Handverk ehf. 

B Kind Handverk er vörumerki sem ber með sér tvíþætta merkingu: 

B stendur annars vegar fyrir fjölskyldunafnið Boutaayacht sem kemur frá norður Marokkó og hins vegar fyrir Björgvin Arnar, sem Aðalheiður annaðist í veikindum hans frá eins árs aldri þar til hann kvaddi aðeins sex ára gamall árið 2013. 

Kind vísar bæði til íslensku kindarinnar sem er undirstaða margra handverkshefða á Íslandi og enska orðinu „kind“ og “mankind” sem minnir okkur á að mýkt, virðing og góðvild skapi fallegustu tengslin. 

Í vefversluninni okkar mun koma til með að vera vandað handverk úr eigin smiðju, allskyns prjóna-, hekl- og föndurvörum ásamt garni og annarri handavinnu. Markmiðið er að skapa samfélag fyrir handavinnufólk og alla þá sem elska að skapa með höndunum. 

Framtíðarsýn fyrirtækisins nær enn lengra en vefverslunin.  

Draumurinn er að leyfa Handavinnubarnum að þróast yfir tíma í stærra og skemmtilegra  verkefni sem verður deilt með viðskiptavinum í náinni framtíð.  

Á bakvið gerð vefverslunarinnar er Regína Ragnarsdóttir, forritari og æskuvinkona Aðalheiðar og hefur hún átt risastóran þátt í að láta þessa hugmynd verða að veruleika.  

Verið öll velkomin á Handavinnubarinn, bar fyrir handavinnufólkið og áhugafólk um handavinnu, þar sem hvert spor er unnið í ró og hæglæti.